Börn yngri en 15 ára neyti ekki áfengis

ásdís

Öll börn ættu að eiga áfengislausa æsku. Þetta er boðskapur landlæknis Breta til foreldra þar í landi. Sir Liam Donaldson mun í leiðbeiningum sínum mæla gegn því að foreldrar leyfi börnum sínum - jafnvel heima fyrir - að bragða áfengi fyrr en þau hafa náð fimmtán ára aldri.

Breska blaðið The Independent greinir frá þessu og segir leiðbeiningar landlæknis boða nokkra áherslubreytingu frá ríkjandi ástandi, en í Bretlandi er heimilt að börn byrji að neyta áfengis strax við 5 ára aldur.

Ábendingar landlæknis koma fram á sama tíma og rannsóknir sýna að hlutfall barna sem neyta áfengis fer lækkandi. Á hinn bóginn fer ofdrykkja eða „fyllerí “ vaxandi hjá þeim sem byrja ung að drekka.

Í ábendingum landlæknis kemur fram að áfengislaus uppvaxtarár eru heillavænlegust meðan heilinn er að þroskast.

Foreldrasamtök styðja viðmiðunaraldurinn

Ekki eru allir sammála heilræðum landlæknis í þessu efni og telja að Bretland eigi að taka upp stefnu margra Evrópuþjóða þar sem börnum er leyft að bragða þynnt vín eða litla skammta áfengis til að svipta hulunni af áfenginu og draga úr aðdráttarafli þess fyrir börn og unglinga. Samtök foreldra í Bretlandi styðja hins vegar stefnu stjórnvalda og telja aldursmörkin eðlileg.

Í athugunum sýnir það sig að af börnum sem vikið hefur verið úr skóla hafa 45% þeirra bragðað áfengi vikuna á undan samanborið við aðeins 21% barna sem ekki höfðu neytt áfengis.

Áhrif áfengis

Í leiðbeiningum landlæknis kemur einnig fram að konur ættu ekki drekka meira en 2 til 3 einingar af áfengi á dag eða sem samsvarar tveimur litlum glösum af víni. Viðmiðið fyrir karla eru 3 til 4 einingar á dag eða um 2 og hálft glas. Mælt er með að láta 48 stundir líða án áfengis eftir umtalsverða neyslu til að gefa líkamanum tóm til að jafna sig.

Samkvæmt breskum lögum mega ökumenn ekki mælast með meira en 80mg á móti 100 ml. af blóði eða sem svarar til eins og hálfs bresks pint, um 850 ml., af bjór af venjulegum styrkleika. Til samanburðar þá kemur fram á doktor.is að í einum drykk (33 cl. áfengur bjór eða 2,8 cl. af sterku víni) eru 0,2 prómill af vínanda en ökumenn hérlendis mega ekki mælast með meira en 0,5 prómill af vínanda í blóði sem er þá ekki langt frá viðmiðunarmörkunum á Bretlandi. Í leiðbeiningum breska landlæknisins er ítrekað að næmni fólks fyrir áfengi sé mjög einstaklingsbundin.

Í leiðbeiningunum er einnig sterklega ráðið frá því að blanda saman áfengi og hverskyns lyfjum og þunguðum konum er alfarið ráðið frá því að neyta áfengis á meðgöngutímanum.

Sir Liam Donaldson.
Sir Liam Donaldson. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert