Drengur fæddist nýverið í Kaliforníu í Bandaríkjunum með 24 fingur og tær, þ.e. sex fingur á hvorri hönd og sex tær á hvorum fæti. Tærnar og fingurnir mynduðust með eðlilegum hætti.
Það kallast polydactylism að fæðast með auka fingur og tær. Það er ekki mjög óalgengt, en það er hins vegar sjaldgæft að börn fæðist með 12 fullskapa fingur og tær.
Starfsmenn Bay Area sjúkrahússins í Kaliforníu tóku hvorki eftir þessu við ómskoðun né þegar drengurinn, Kamani Hubbard, fæddist. Það var faðirinn, Kris Hubbard, sem tók eftir viðaukunum.
Polydactylism gengur í erfðir og faðirinn segir að þetta þekkist í fjölskyldu hans. Hann tekur hins vegar fram að sonur sinn sé einstakur hvað þetta varði.
„Sumir í fjölskyldunni voru með sex fingur, sem voru ekki fullskapaðir. En ekki tær,“ segir hann.
Barnalæknir segir að þetta sé bæði áhugavert og fallegt. Þetta sé ekkert til að hafa áhyggjur af.
Hann segir að drengurinn gæti orðið hæfileikaríkur píanóleikari eða flamenkó gítarleikari.