Mozilla til liðs við ESB í kærumáli gegn Microsoft

Mitchell Baker, forstjóri Mozilla.
Mitchell Baker, forstjóri Mozilla.

Mozilla, fyrirtækið sem framleiðir opinn hugbúnað svo sem Firefox-vafrarann, hefur fylkt sér á bak við við kvörtun samkeppnisyfirvalda ESB á hendur Microsoft þess efnis að hugbúnaðarrisinn bandaríski tengi Explorer-vafra sinn við Windows-stýrikerfi sitt með ólögmætum hætti.

Á bloggi sínu um helgina sagði Mitchell Baker, aðalforstjóri Mozilla, að hún velktist ekki í neinum vafa um að bráðabirgðaniðurstaða ESB - sem tilkynnt var um í síðasta mánuði - um ólöglegt athæfi Microsoft í þessu efni ætti við rök að styðjast og að þessi tenging skaðaði samkeppni milli vefvafra, græfi undan nýsköpun á þessu sviði og drægi úr vali neytenda fyrir bragðið.

Baker sagðist myndu fylgjast grannt með aðgerðum Evrópusambandsins í þessu efni, bæði persónulega og fyrir hönd Mozilla, og hét því fullum stuðningi með því að bjóða fram sérfræðiþekkingu Mozilla.

Samkvæmt frétt í The Financial Times þykir stuðningur Mozilla við kvörtunina markverður vegna þess almennt er talið að vafri fyrirtækisins sé sá sem veiti Explorer-vafra Microsoft hvað harðasta samkeppni. Reyndar hafa nokkrir sérfræðingar sem talað hafa máli Microsoft, sagt að málið hafi minna gildi núna vegna þess hvernig mál hafi þróast í netheimum undanfarið.

Það var norska fyrirtækið sem framleiðir Opera-vafrann sem upphaflega  lagði fram kæru gagnvart Microsoft og varð til þess að samkeppnisyfirvöld ESB tóku málið upp. Í yfirlýsingu í gær fögnuðu forráðamenn Opera ummælum aðalforstjóra Mozilla og sögðu þau bæði réttmæt og tímabær.

Fyrirtækið gat hins vegar ekki staðfest orðróm þess efnis að Mozilla myndi verða formlegur aðili að kærunni en útilokuðu ekki heldur að svo gæti farið.

Yfirmenn samkeppnismála í Brüssel bíða sem stendur eftir viðbrögðum Microsoft við bráðabirgðaniðurstöðunni. Fyrirtækið segist vera að fara yfir málin og svara áður en 2ja mánaða svarfresturinn rennur út. Það getur óskað eftir munnlegum málflutningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert