HR fær 292 milljóna króna styrk frá ESB

Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans
Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hefur verið úthlutað tveggja milljóna evra, 292 milljónir íslenskra króna miðað við gengi evru í dag, styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins til gervigreindarrannsókna. Þetta er langhæsti styrkur veittur íslenskum aðilum til rannsókna í tölvunarfræðum og jafnframt hæsti rannsóknarstyrkur sem veittur hefur verið vísindamönnum við HR.

Í tilkynningu kemur fram að skólinn muni leiða þriggja ára rannsóknarverkefni á gervigreind, í samstarfi við breskt fyrirtæki og fjóra evrópska háskóla. Styrkurinn er veittur til rannsókna á grunntækni gervigreindar og er takmark þeirra að þróa nýjar aðferðir við gerð gervigreindra vitvera sem geta numið flókið atferli og lært án beinnar íhlutunar forritara.

„Dr. Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, er hugmyndasmiður og upphafsmaður þessarar rannsóknar og kemur til með að leiða rannsóknarstarf háskólanna fimm. Hann segir að í verkefninu verði smíðuð ný tegund hugbúnaðar, gædd sjón og heyrn, sem getur fylgst með hegðun fólks með því að hlusta og horfa. Forritið mun stýra „sýndarvélmenni“ sem smám saman lærir upp á eigin spýtur að herma eftir mannlegri hegðun og þroskast í bæði hegðun og hugsun. Vonast rannsóknarhópurinn til að verkefnið leiði til verulegra framfara á því sviði sem nefnt hefur verið „almenn gerivigreind” (e. artificial general intelligence)," að því er segir í tilkynningu.

Dr. Ari Kristinn Jónsson, forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, segir þennan styrk mjög mikilvægan fyrir íslenskt vísindasamfélag og telur það enga tilviljun að tölvunarfræðideild HR skuli vera í fararbroddi í alþjóðlegum gervigreindarrannsóknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert