Tímamót í alnæmisbaráttunni?

Forsetafrú Frakklands hefur verið á ferðalagi um Afríku þar sem …
Forsetafrú Frakklands hefur verið á ferðalagi um Afríku þar sem hún hefur kynnt sér aðstæður alnæmissjúklinga. Reuters

Þýskum læknum hefur tekist að losa mann við HIV-veiruna, sem veldur alnæmi, með því að gefa honum merg úr manni, sem hefur náttúrulegt ónæmi eða mótstöðuafl við veirunni. Hefur þetta vakið mikla athygli og kann að boða tímamót í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm.

Þessi árangur kann að valda því, að í stað þess að fólk, sem er smitað af HIV, þurfi að vera á rándýrum lyfjum, sem hafa margvíslegar aukaverkanir, nægi að það gangist undir eina aðgerð, mergskipti, og sé þar með laust við veiruna.

Málið snýst um 42 ára gamlan Bandaríkjamann, sem býr og starfar í Berlín, en hann hafði verið smitaður í áratug. Í Berlín fékk hann alnæmislyf um fjögurra ára skeið en veiktist þá af hvítblæði. Fyrir tveimur árum fékk hann merggjöf og síðan hefur hann hvorki verið á lyfjum né fundið fyrir hvítblæðinu. Ekki er vitað til að annar maður, sem er smitaður af HIV, hafi lifað lengur eftir að lyfjagjöf var hætt. Kemur þetta fram í grein í The New England Journal of Medicine.

Stökkbreyting í geni

Bandaríkjamaðurinn, sem merggjöfina fékk, hefur verið í reglulegu eftirliti um tveggja ára skeið en engin merki eru um alnæmisveiruna, hvorki í merg, blóði né vefjum.

Dr. Gero Hutter, blóðmeinafræðingur við Charité-sjúkrahúsið, segir, að ekki sé líklegt, að bein mergskipti verði almenn aðferð í baráttunni við alnæmi. Þeim fylgi viss áhætta auk þess sem það geti verið erfitt að finna rétta merggjafann. Finnst honum sennilegra, að uppgötvunin muni ryðja brautina fyrir genalækningum. Það er ekki aðeins, að árangur þýsku læknanna gefi vonir um nýja tíma í baráttunni við alnæmi, heldur er fjárhagslega eftir miklu að slægjast. Full lyfjameðferð í eitt ár kostar allt að 11 milljónum kr. í Evrópu en merggjöf í eitt skipti fyrir öll rúmar fjórar millj. kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert