Hlýnun jarðar vanmetin

Losun gróðurhúsalofttegunda er meiri en áður hefur verið talið.
Losun gróðurhúsalofttegunda er meiri en áður hefur verið talið. Reuters

Sérfræðingur í loftslagsrannsóknum segir, að hlýnun andrúmsloftsins sé mun meiri og hraðari en til þessa hafi verið talið og ljóst, sé að hitastig á jörðinni verði mun hærra í framtíðinni en áður var spáð. Ástæðan sé að losun gróðurhúsalofttegunda á árunum 2000-2007 var mun meiri en áður var talið. 

Chris Field, sem er einn helsti sérfræðingur heims í loftslagsmálum, sagði í erindi á ráðstefnu í Chicago í gær, að aukin losun koldíoxíiðs út í andrúmsloftið stafi aðallega af því að kol hafi verið notuð í stórum stíl til að framleiða raforku í Kína og á Indlandi. Enn sé ekki ljóst hvaða áhrif þessi aukna losun muni hafa en líklegt sé að hlýnun jarðar muni vaxa mun hraðar og valda meiri umhverfisspjöllum en áður hefur verið talið.

Field sagði í skýrslu, sem hann samdi árið 2007, að hitastig á jörðinni muni vaxa á bilinu 1-6,4°C á næstu öld. Hann sagði nú, að hann hefði vanmetið vandamálin þegar hann samdi skýrsluna.

Hann sagði, að hlýnun jarðar muni valda þurrkum á frumskógarsvæðum og auka líkur á skógareldum þar. Einnig muni sífrerinn á heimskautasvæðum bráðna og það muni valda því að magn kolefnis í andrúmsloftinu eykst.  

„Verði ekki gripið til raunhæfra ráðstafana munu loftslagsbreytingarnar verða meiri og erfiðari viðfangs en við höfum talið," hefur fréttavefur BBC eftir Field.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert