Viðamiklar rannsóknir á alheimsógn

Adele-mörgæsir á Royds-höfða á Suðurskautslandinu.
Adele-mörgæsir á Royds-höfða á Suðurskautslandinu. AP

Hópur dúðaðra umhverfissinna mætti á hina norsku Troll rannsóknarstöð á Suðurskautslandinu í dag til að fræðast um hvernig heiminum stafar hætta af bráðnandi ís á svæðinu. Á næstu dögum mun viðamikilli rannsókn á loftslagsbreytingum ljúka.

Fulltrúar yfir tólf þjóða, þ.á m. Bandaríkjanna, Kína, Bretlands og Rússlands, hittu bandaríska og norska vísindamenn á lokaáfanga 2.300 km ferðalags yfir ísinn frá Suðurpólnum, sem tekið hefur um tvo mánuði. Ætlunin er að fulltrúarnir öðlist reynslu af þessu gríðarstóra svæði og átti sig á hlutverki þess í loftslagsbreytingum jarðarinnar. 

Í rannsóknarstöðinni verða þeir m.a. fræddir um óvissuna sem setur mark sitt á rannsóknir á Suðurskautslandinu og tengsl þess við hlýnun jarðar. Hversu mikið er Suðurskautslandið að hitna? Hversu mikill ís er að bráðna og hversu mikið mun yfirborð sjávar hækka? Þessum spurningum er afar erfitt að svara.

IPCC, vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, spáir því að yfirborð sjávar muni hækka um allt að 0,59 metra á þessari öld vegna aukins hita og bráðnun íss, verði lítið gert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. IPCC tók Suðurskautslandið og Grænland þó ekki með í útreikningana þar sem þekkingu á samspili andrúmslofts og sjávar við ísinn er ábótavant. 90% alls íss í heiminum eru á Suðurskautslandinu. Ástandið er „ógnvænlegt,“ segir Rajendra Pachauri, aðalvísindamaður IPCC en að sögn loftslagsfræðings hjá NASA er hætta á að yfirborð sjávar hækki um nokkra metra.

Aðalviðfangsefni hreyfingar, sem telur 10 þúsund vísindamenn og 40 þúsund aðra einstaklinga frá yfir 60 löndum, er að finna svör við fyrrnefndum spurningum. Þeir hafa sökkt sér í rannsóknir á Norður- og Suðurheimskautinu síðustu tvö sumrin á suðurhvelinu.

Vísindamennirnir segja þó að mun meiri rannsóknir séu framundan sökum þess hve málið sé flókið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka