Á tímum þegar flestir eru skráðir á samskiptasíðu og eiga myndavélasíma verður æ algengara að hinir hefðbundnu fjölmiðlar séu ekki fyrstir með fréttirnar eins og svo oft áður. Í gær var t.d. samskiptasíðan Twitter fyrst allra til að birta myndir af brotlendingu flugvélar við Schipol flugvöllinn í Amsterdam.
Aðeins nokkrum andartökum eftir flugslysið í gærmorgun birtust fréttir af því á Twitter. „Það var fyrst sagt frá slysinu á Twitter og svo héldu fréttirnar áfram að birtast þar,“ segir fréttamaðurinn Errol Barnett. „Sjónarvottar settu inn athugasemdir um áfallið sem þeir fengu við að sjá flugvélina taka dýfu og undrunarsvipinn á farþegunum sem gengu út úr flakinu.“
„Á Twitter birtist dramatísk mynd af brotinni vél og það var það fyrsta sem umheimurinn fékk að sjá af brotlendingu Turkish Airlines vélarinnar. Myndina tók ökumaður á nálægri hraðbraut, rétt norðan við lendingarstaðinn.“
Skömmu síðar varð fréttastöðin CNN vör við fréttaflutninginn og myndbirtinguna á Twitter, fékk staðfestinguna á slysinu hjá hollenskum yfirvöldum og birti fréttina. „Þetta sýnir að samskiptasíður geti reynst vel í fréttaflutningi af nýjustu atburðum og sérstaklega þegar kemur að því að safna saman vitnisburði, en það þarf samt alltaf að taka netinu með ákveðnum fyrirvara,“ segir Barnett.