Hópur vísindamanna segir í tímaritinu Nature að HIV vírusinn þróist og breytist hratt til að snúa á ónæmisvarnir mannslíkamans. Það geri vísindamönnum um heim allan afar erfitt fyrir að búa til bóluefni gegn vírusinum.
„Á þeim skamma tíma sem HIV vírusinn hefur verið til, hefur hann náð að komast undan öllum okkar tilraunum til að búa til bóluefni,“ segir vísindamaðurinn Philip Goulder frá Fáskólanum í Oxford. „Þróunin hefur orðið á undraverðum hraða á síðustu tveimur áratugum.“
Goulder og félagar hans rannsökuðu genakóða og HIV-stofna 2.800 smitaðra einstaklinga í N-Ameríku, Evrópu, suðurhluta Afríku, Ástralíu og Japan og einblíndu á svokölluð HLA-gen (Human Leukocyte Antigen) sem eru prótein er vara líkamann við „boðflennum“. HLA kynna lítil brot af vírusnum fyrir T-frumum, varnarkerfi líkamans, sem í kjölfarið leitar vírussins og útrýmir honum.
Síðan ljóst var að HIV vírusinn orsakaði alnæmi fyrir rúmum 25 árum síðan hafa vísindamenn komist að því að þó enginn virðist ónæmur fyrir vírusnum sé fólk mislengi að komast á lokastig sjúkdómsins. Án lyfja geta sumir fengið alnæmi aðeins ári eftir að hafa smitast af HIV á meðan það tekur aðra allt að tvo áratugi. Þetta fer eftir HLA því það eru til margar ólíkar gerðir próteinsins og eru sumar mun betri í að berjast gegn HIV en aðrar.
Goulder og vísindamennirnir komust að því að vírusinn getur stökkbreyst þegar HLA er sérstaklega öflugt. Þá verður vírusinn skæðari og erfiðari viðureignar og getur einstaklingur smitað annan af þessari nýju, stökkbreyttu gerð. Þessi nýja gerð nær að „snúa á“ öflug HLA svo sjúkdómurinn þróist á svipuðum hraða og ef um „venjuleg“ HLA væri að ræða.
Þetta gerir vísindamönnum erfitt fyrir sem vilja finna bóluefni gegn HIV því þá þurfa þeir að takast á við ólíkar gerðir stökkbreyst HIV vírussins. Þá þyrfti bóluefnið að vera í stöðugri þróun, líkt og sjálfur vírusinn.
Alnæmis varð fyrst vart árið 1981 og tveimur árum síðar varð vísindamönnum ljóst að HIV vírusinn orsakaði það. 25 milljónir manna hafa dáið úr alnæmi og er talið að um 33 milljónir séu smitaðar af HIV.