Aldrei of seint að byrja að hreyfa sig

AP

Aukin hreyfing um miðjan aldur getur aukið lífslíkur karla jafn mikið og að hætta reykingum, samkvæmt niðurstöðu nýrrar sænskrar rannsóknar. 

Samkvæmt rannsókninni hefur það sömu áhrif á lífslíkur karla að auka reglulega hreyfingu sína, á aldrinum fimmtíu til sextíu ára, og að hætta reykingum á sama aldri. Þá benda niðurstöður rannsóknarinnar til að það hafi jafnmikil áhrif á lífslíkur karla að hefja reglulega hreyfingu eftir fimmtugt og að hreyfa sig reglulega fram að því.

Eru áhrif aukinnar hreyfingar á þessum aldri álíka áhrifamikil og  það að láta af reykingum á sama aldri. 

2.200 karlar, eldri en fimmtíu ára, hafa tekið þátt í rannsókninni sem staðið hefur yfir við háskólann í Uppsölum frá áttunda áratug síðustu aldar. Tekið er tillit til annarra þátta svo sem mataræðis, áfengisdrykkju og reykinga í rannsókninni.

Mönnunum var skipt í þrjá hópa eftir því hvað þeir sögðust hreyfa sig mikið. Samkvæmt niðurstöðunum lifðu þeir sem hreyfðu sig mest, um fimmtugt, að jafnaði 2,3 árum lengur en þeir sem hreyfðu sig minnst en 1,1 ári lengur en þeir sem féllu í miðjuhópinn.

Karl Michaelsson, sem stjórnaði rannsókninni, segir hana sýna fram á mikilvægi þess að hvetja karla til reglulegrar hreyfingar jafnvel þótt þeir séu komnir á miðjan aldur og hafi ekki hreyft sig reglulega fram að því. Sérfræðingar leggja þó áherslu á að aðrir þættir og þá sérstaklega mataræði skipti einnig höfuðmáli varðandi lífslíkur karla eftir miðjan aldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert