Geimsjónauka skotið á loft

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, skaut í nótt á loft geimsjónaukanum Kepler sem á að leita að reikistjörnum, sem líkjast jörðinni, á svæðum þar sem líklegt er að vatn sé á yfirborðinu og líf ætti að geta þrifist, þ.e. svæðum sem eru hvorki of heit né of köld.

Sjónaukanum var skotið á loft með Delta II-burðarflaug frá Canaveral-höfða á Flórída klukkan 3.49 að íslenskum tíma í nótt.

„Þetta er söguleg rannsókn; ekki aðeins vísindarannsókn,“ sagði Edward Weiler, talsmaður NASA. „Ég held því fram að með þessari rannsókn séum við að leita svara við grundvallarspurningum sem hafa verið hluti af genum okkar frá því að fyrsti maðurinn eða konan horfði upp í himininn og spurði: erum við ein?“

Geimsjónaukinn er búinn stærstu myndavél sem nokkurn tíma hefur verið flutt í geiminn. Gert er ráð fyrir því að rannsóknin standi í þrjú og hálft ár.

Sjónaukinn er nefndur eftir þýska stjörnufræðingnum Jóhannesi Kepler (1571-1630). Kenningar hans áttu stóran þátt í því að festa sólmiðjukenninguna í sessi.

Burðarflaug með geimsjónaukanum Kepler skotið á loft.
Burðarflaug með geimsjónaukanum Kepler skotið á loft. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka