Tæknifyrirtækið Apple svipti hulunni af nýjum iPod shuffle í dag. Fyrirtækið segir að tónlistarspilarinn sé sá minnsti í heiminum. Þá kemur fram að tækið geti talað við eigandann á 14 tungumálum.
Ef eldri gerðin af iPod shuffle var lítil þá er nýja týpan helmingi minni. Tónlistarspilarinn getur einnig sagt notandanum frá því hvað lagið sem er spilun heitir og hver flytjandinn er.
„Þriðja kynslóðin af iPod shuffle er mun minni en rafhlaða af AA stærð, og spilarinn getur geymt allt að 1.000 lög og þá er hann auðveldari í notkun þar sem stjórntækjunum er komið haganlega fyrir á snúrunni fyrir heyrnartólin,“ segir í tilkynningu frá Apple.
„Með því að þrýsta á einn hnapp er hægt að spila lag, gera hlé, breyta hljóðstyrknum, breyta um lagalista og heyra hvað lagið og tónlistarmaðurinn heitir.“
Nýja tækið mun kosta 79 dali (tæpar 9.000 kr.) í Bandaríkjunum.
Á síðasta ári seldi Apple 22,7 milljónir iPod tónlistarspilara.