Verið er að undirbúa rannsókn sem gæti markað tímamót í læknisfræði. Vísindamenn hjá Skoska blóðgjafafélaginu ætla að reyna að búa til blóð úr stofnfrumum fósturvísa og takist það væri hægt að framleiða ótakmarkað magn blóðs, laust við sýkingarhættu.
Formaður Skoska blóðgjafafélagsins, prófessorinn Marc Turner, hefur undanfarin ár komið að rannsóknum á því hvernig hægt er að tryggja að gjafablóð sé laust við sýkingar.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær rannsóknin mun hefjast en eftir er að greiða úr nokkrum lagalegum atriðum. Vísindamennirnir munu rannsaka fósturvísa sem ekki hafa verið notaðir við tæknifrjóvganir og reyna að finna þá sem eru „forritaðir“ til að þróast í O- blóðflokkinn. Hægt er að gefa öllum þeim, sem þurfa á blóðgjöf að halda, blóð úr O- flokki.
O- er þó tiltölulega sjaldgæfur blóðflokkur en um 7% mannkyns er í honum. Hægt yrði að framleiða hann í ótakmörkuðu magni úr stofnfrumum fósturvísa þar sem frumurnar geta fjölgað sér óendanlega á rannsóknarstofum. Ýmsar siðferðislegar spurningar vakna þegar talað er um að eyðileggja fósturvísa til að búa til stofnfrumur en bent hefur verið á að fræðilega ætti einn fósturvísir að geta uppfyllt þarfir heillar þjóðar.