Fjöldi þeirra sem læknast alveg af krabbameini – en ná ekki bara að lifa fyrstu 5 ár eftir greiningu - eykst stöðugt. Þetta kemur fram í niðurstöðum langtíma faraldsfræðirannsóknarinnar EUROCARE-4 sem birtust nýlega í European Journal of Cancer.
Rannsóknin bar saman tvö tímabil – 1988-1990 og 1997-1999 – og er niðurstaðan sú að hlutfall sjúklinga sem læknast höfðu af lungnakrabbameini jókst úr 6 í 8%, af magakrabbameini úr 15 í 18% og af ristil- og endaþarmskrabbameini úr 42 í 49%. Einnig kom fram marktækur munur á líkum á lækningu eftir löndum, að því er segir í tilkynningu.
Lækning karla líklegust á Íslandi
Þegar öll krabbamein eru tekin saman kemur í ljós að hlutfall karla sem læknast er hæst á Íslandi (47%) en í Frakklandi og á Finnlandi er hæst hlutfall kvenna sem læknast (59%). Lægsta hlutfall lækningar hjá bæði körlum (21%) og konum (38%) var í Póllandi.
„Við erum að vonum mjög ánægð með þennan árangur og að íslenskum karlmönnum vegni svo vel eftir krabbameinsgreiningu," segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í fréttatilkynningu.
„Þarna eru sterk áhrif lang algengasta meinsins, blöðruhálskirtilskrabbameins, en Ísland er í næst efsta sæti hvað varðar hlutfall karla sem læknast af þeim sjúkdómi. Önnur skýring tengist því að á Íslandi greinast hlutfallslega fáir karlar með lungnakrabbamein, en þar eru horfurnar ekki góðar. Íslenskar konur koma einnig vel út í samanburðinum, en 55% þeirra læknast. Bilið var frá 38% til 59% hjá þeim sem tóku þátt í rannsókninni. Það sem helst dregur íslensku konurnar niður er að hlutfall lungnakrabbameins af öllum meinum er með því hæsta sem gerist í Evrópu,"segir Guðrún ennfremur í tilkynningu.