Brátt mun ferðamönnum gefast kostur á að kaupa sér far út í geim, en sænsk ferðaskrifstofa hyggast bjóða upp á stuttar geimferðir árið 2012. Talsmenn fyrirtækisins segja að ferðamönnunum verði skotið út í geim frá Kiruna í norðurhluta Svíþjóð.
„Við eigum von á því að fyrstu farþegaflugin hefjist í Bandaríkjunum árið 2011 og að Kiruna (sem er í norðurhluta Svíþjóðar) bjóði upp á slíkar ferðir um ári síðar, eða árið 2012,“ segir Johanna Bergström-Roos, talskona Spaceport Sweden.
Það er fyrirtækið Virgin Galactic, sem er í eigu breska auðjöfursins Richard Branson, sem mun skjóta ferðamönnum um 110 km út fyrir gufuhvolf jarðar frá Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum.
Talsmenn Virgin Galactic greindu frá því á þriðjudag að fyrirtækið hafi samið við fimm norrænar ferðaskrifstofur sem munu fá leyfi til að selja miða í ferðirnar, bæði í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Talið er að ferðin muni kosta frá 200.000 dölum (rúmar 23 milljónir kr.) á mann. Vonir standa til að verðið muni lækka í framtíðinni.
„Við vonum að Kiruna verði aðalskotpallur Evrópu fyrir slík farþegaflug,“ sagði Bergström-Roos.
Þegar er búið að selja um 300 miða og eru Danir, Finnar og Svíar á meðal þeirra sem hafa keypt slíka miða.