Ráð sérfræðinga rugla heilann og valda því að menn missa dómgreindina. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem geta mögulega útskýrt hvers vegna enginn brást við viðvörunum um yfirvofandi efnahagshrun.
Vísindamaðurinn Gregory Berns, sem starfar við Emory háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum telur hluta skýringarinnar vera þá hvernig heilinn bregst við þegar meta þarf hættu - með eða án ráða sérfræðinga.
Berns fékk nýlega 24 sjálfboðaliða úr hópi háskólanema til þess að velja milli öruggrar greiðslu annars vegar og happdrættis og þar með mögulega meiri gróða hins vegar.
Meðan á rannsókninni stóð sást að þau svæði heilans sem urðu virk voru þau sem notuð eru til þess að meta áhættu en þau tengjast dópamínframleiðslu.
„Þegar engin sérfræðingaráð eru með í myndinni sést greinilegt samband milli mögulegs happdrættisvinnings og svæða sem tengjast dópamínframleiðslu,“ segir Gregory Berns, að því er segir á viðskiptavefnum e24.se sem vitnar í New Scientist.
Til þess að sjá hvernig sjálfboðaliðarnir myndu bregðast við ráðum sérfræðinga var þeim sagt að Charles Noussair, hagfræðiprófessor við Emory háskólann og ráðgjafi bandarískra yfirvalda, væri reiðubúinn til þess að segja skoðun sína á því hvort þeir ættu að þiggja greiðsluna eða taka séns á happdrættisvinningi.
Í ljós kom, með myndum af heilanum, að sjálfboðaliðarnir fór nær undantekningalaust eftir ráðum sérfræðinganna en þá urðu svæðin í heilanum sem framleiða dópamín ekki virk.
„Það kemur í ljós að venjuleg starfsemi við mat á áhættu fer ekki í gang þegar sérfræðingur segir manni hvað maður á að gera. Ég held að það geti, ef ekki að fullu leyti þá að minnsta kosti að hluta, útskýrt núverandi ástand. Það er mitt mat að ákvarðanataka eigi ekki að vera á höndum annarra, hvort sem þeir eru sérfræðingar eða ekki,“ segir Berns.