Samkvæmt nýrri rannsókn eru systur meiri gleðigjafar en bræður. Vísindamenn þaulspurðu 571 manneskju á aldrinum 17-25 ára um lífið og tilveruna og komust að því að þeir sem alast upp með systrum eru líklegri til að vera hamingjusamir.
Vísindamennirnir segja að séu dætur í fjölskyldu verða fjölskyldumeðlimirnir opnari og líklegri til að ræða tilfinningar sínar. Nærvera stúlkna væri sérstaklega mikilvæg eftir erfiða viðburði innan fjölskyldunnar, t.d. skilnaði.
„Systur virðast hvetja til opnari samskipta og halda fjölskyldunum betur saman,“ segir prófessorinn Tony Cassidy. „Bræður virðast hinsvegar hafa öfug áhrif. Að geta tjáð tilfinningar sínar er bráðnauðsynlegt til að halda góðri andlegri heilsu og það virðist gerast frekar í þeim fjölskyldum þar sem systur eru til staðar.“
Cassidy segir marga þátttakendanna hafa alist upp í sundruðum fjölskyldum og þar skipti nærvera systra hvað mestu máli. „Ég held að niðurstöðurnar geti gagnast því fólki sem styður við fjölskyldur og börn þegar þau ganga í gegnum erfiðleika. Við gætum þurft að passa sérstaklega upp á það hvernig við aðstoðum fjölskyldur með marga drengi.“