Vísindamönnum við Sheffield-háskóla í Bretlandi hefur tekist að breyta stofnfrumum úr fósturvísum í frumur sem hegða sér eins og hárfrumur í innra eyranu, að sögn BBC. Talið er að á endanum geti tilraunir af þessu tagi leitt til þess að hægt verði að hjálpa fólki sem hefur misst hárfrumur af völdum heyrnarskaða og einnig fólki með meðfædda heyrnargalla. Nokkur ár muni þó líða áður en það takist.
Sem stendur er engin leið að lagfæra tjón á hárfrumum í innra eyranu en um 10% fólks í heiminum er með skerta heyrn af völdum slíks tjóns. Stofnfrumur úr fósturvísum hafa þann eiginleika að geta breyst í nær allar sérhæfðar gerðir af frumum í mannslíkamanum.