Með því að anda að sér ilmi lofnarblóma áður en sest er niður til að horfa á eins og eina hryllingsmynd er hægt að koma í veg fyrri að óttinn nái yfirhöndinni - en bara í tilfelli kvenna. Karlar ættu hins vegar að forðast lyktina nema þeir vilji gera upplifunina enn óhugnanlegri.
Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem kynnt var British Psychological Society. Þátttakendum í rannsókninni var ýmist afhent lyfjahylki með lofnarblómi eða staðleysa og lífeðlisfræðileg viðbrögð þeirra við ýmsum gerðum kvikmynda síðan könnuð.
Hjarta kvennanna sem tóku inn lofnarblómshylkin sýndi aukin viðbrögð, en slíkt þykir benda til aukinnar afslöppunar, við öllum þremur myndum. Karlarnir sem tóku inn lofnarblómið sýndu hins vegar einkenni aukinnar streitu, m.a. sveitta lófa, við áhorf hryllingsmyndarinnar.
Ákveðið var gefa lofnarblómið inn í töfluformi í stað þess að láta fólk anda að sér lyktinni, eins og algengast er, þar sem að ómögulegt væri að búa til staðleysu fyrir ilminn. „Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að kjarnolíur fari vel inn í blóðrásina er maður andar að sér ilmi þeirra. Þannig að við búumst við að viðbrögðin séu svipuð og ef að fólkið hefði andað að sér lykt lofnarblómsins,“ segir Belinda Bradley við Univesity of Central Lancashire sem fór fyrir rannsókninni.
Ekki liggur hins vegar fyrir hvers vegna kynin bregðast svo ólíkt við ilminum, en talið er að helmingi fleiri konur en karlar þjáist af kvíða.