Geyma upplýsingar um netsamskipti

Fjarskiptafyrirtækjum í Evrópusambandslöndum er nú skylt að vista upplýsingar um netsamskipti og netsímtöl í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. tilskipunin tók gildi í gær og verða upplýsingarnar geymdar í allt að 12 mánuði. Samkvæmt tilskipun ESB geta yfirvöld fengið aðgang að upplýsingunum með dómsúrskurði.

Tilskipunin nær til tölvupóstsendinga á netinu og símtala gegnum netið. Innihald tölvupósta verður ekki vistað heldur upplýsingar um sendanda og móttakanda. Sama gildir um netsímtöl, þar verða upplýsingar um samtölin skráðar og geymdar en ekki upptökur af símtölunum sjálfum. Þegar er í gildi tilskipun ESB um að geyma skuli upplýsingar um símtöl á fastlínuneti og farsímasímtöl.

Hugmyndin að upplýsingasöfnuninni kom upp í kjölfar sprengjuárásanna í London árið 2005.

Jim Killock, talsmaður Open Rights samtakanna segir að tilskipunin sé galinn. Hún geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir borgarana. Trúlega muni fleiri lögregluyfirvöld vilja komast í upplýsingar um netsamskipti borgaranna.

Aðildarríki ESB vinna nú að því að innleiða tilskipunina í löggjöf viðkomandi landa.

Fjarskiptafyrirtæki hafa gert athugasemdir við þann aukakostnað sem fylgir því að vista svo mikið magn upplýsinga og geyma í allt að 12 mánuði. Stjórnvöld í Bretlandi hafa fallist á að greiða þann kostnað sem af þessu hlýst.

Svíar hafa ákveðið að hunsa tilskipunina þar til niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli sem rekið er í Þýskalandi vegna tilskipunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert