Heimafæðingar með aðstoð ljósmóður eru alveg jafn öruggar og fæðingar á sjúkrahúsum ef meðgangan hefur verið eðlileg. Þetta er niðurstaða nýrrar hollenskar rannsóknar en rannsóknin er sú viðamesta á þessu sviði sem gerð hefur verið.
Samkvæmt rannsókninni, sem birtist í BJOG ritinu, látast álíka mörg börn og margar mæður við barnsburð í heimahúsum og við fæðingar á sjúkrahúsum. Rannsóknin nær til 530 þúsund fæðinga.
Á vef BBC kemur fram að sífellt fleiri konur velja að fæða í heimahúsi. Á árinu 2006 námu heimafæðingar 2,7% af öllum fæðingum í Englandi og Wales.
Rannsóknin var gerð í Hollandi kjölfar þess að þar í landi er ungbarnadauði einna algengastur af ríkjum Evrópu. Var jafnvel talið að þar skipti máli að þriðjungur kvenna í Hollandi velur að fæða heima og eru þær hvattar til þess á meðgöngu ef meðgangan hefur verið eðlileg. Hins vegar leiddi rannsóknin í ljós að enginn merkjanlegur munur var á því hvort börn létust í fæðingu eða skömmu eftir fæðingu ef þau fæddust heima eða á sjúkrahúsi. Segir Simone Buitendijk, sem stýrði rannsókninni, að þetta eigi að hvetja barnshafandi konur til þess að ráða ferðinni hvað varðar fæðingarstað.
Hins vegar leiddi rannsóknin í ljós að þriðjungur kvenna, sem ætla sér að fæða heima, er fluttur á sjúkrahús eftir að fæðing hefst. Ástæðan er yfirleitt sú að hjartsláttur fóstursins er óeðlilegur eða að móðirin vill fá meiri deyfingu heldur en hægt er í heimahúsi.