Bandaríksi kvikmyndaleikarinn Ashton Kutcher hafði í morgun betur í keppni sinni við CNN sjónvarpsstöðina um það hver yrði fyrstur til að safna milljón notendum á Twitter samskiptasíðu sína.
Í morgun voru hátt í 2.000 fleiri skráðir notendur á síðu Kutchers „@aplusk" en á síðu CNN. Hann átti sjálfur frumkvæðið að keppninni eftir að hann tók eftir því að notendur á síðu hans voru næstum jafn margir og notendur síðu CNN.
Twitter hafði heitið sigurvegaranum 100.000 dollara verðlaunum sem munu renna til góðgerðarsamtaka að hans vali og hefur Kutcher lýst því yfir að hann muni afhenda samtökunum "Malaria No More"' peningana til kaupa á moskítónetum til að hefta útbreiðslu malaríu.
Hann segir sigurinn þó fyrst og fremst vera táknrænan sigur almennings gegn stofnanavæðingu á netinu.