Breski stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking var í miðju kafi við framhaldsnám í eðlisfræði við Cambridge-háskóla þegar læknar tjáðu honum að hann ætti í besta falli tvö til þrjú ár eftir ólifuð. Sigurganga hans síðan er óður til þess sem mannsandinn getur fengið áorkað andspænis ofureflinu.
Hawking þjáðist af hreyfitaugungahrörnun, skelfilegum sjúkdómi sem sviptir sjúklinga hreyfigetu, en lét ekki deigan síga heldur hélt ótrauður áfram á braut glæsilegs vísindaferils sem nú er blessunarlega útlit fyrir að muni halda áfram, þrátt fyrir veikindi.
Stiklað er á stóru í ævi Hawkings í þessari grein Lárusar Thorlaciusar á Vísindavefnum en hann ritaði einnig inngang að íslensku þýðingu bókarinnar Saga tímans sem Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út.
Saga tímans, eða A Brief History of Time eins og hún hét á frummálinu, sat í 237 vikur á metsölulista The Sunday Times í Bretlandi en það er með fádæmum, ef ekki einsdæmi, um svo drjúga sölu á jafn háfleygu efni.
Þarf líklega að fara aftur til annars áratugs síðustu aldar þegar rætt var um Albert Einstein og kenningar hans um afstæði tímans í hanastélum til að finna viðlíka almenningshylli á heimsfræðingi í fremstu röð.
Eins og rakið er í ævisögunni A Life in Science voru ýmsir aðstoðarmenn Hawkings tortryggnir í garð þeirrar hugmyndar að skrifuð yrði alþýðleg bók um viðfangsefni hans, af ótta við að þær yrðu ofureinfaldaðar eða jafnvel skrumskældar.
Til umræðu var að láta huliðshöfund skrifa bókina undir nafni Hawkings sem tók það ekki í mál heldur hafði yfirumsjón með gerð bókarinnar sem aðstoðarmenn gáfu góð ráð um.
Hawking varð í kjölfarið að stjörnu langt út fyrir raðir vísindaheimsins en sjálfur vildi hann að sem flestir kæmust í snertingu við hugmyndir sínar.
Viðtal við The Sunday Mirror og þátttaka í gerð þáttar um Simpson-fjölskylduna eru dæmi um metnað hans til að ná til breiðari hóps en gengur og gerist á meðal stjarneðlisfræðinga.
Hefur storkað örlögunum
Snillingurinn í hjólastólnum hefur oftar en ekki storkað örlögunum.
Það er þannig til dæmis rakið í A Life in Science að sú goðsögn lifi að það hafi orðið Hawking til lífs þegar hann veiktist lífshættulega í Þýskalandi að læknirinn hafði séð sjónvarpsþátt um hann og vissi því hvaða lyf mætti ekki gefa honum.
Í kjölfarið þurfti að gera aðgerð á honum sem hafði þær afleiðingar í för með sér að hann hefur síðan talað með aðstoð talgervils.
Hefur Hawking því oftar en ekki beðið afsökunar á því að hann „tali“ með amerískum hreim.
En af tvennu góðu hefur hann jafnframt sagt frekar vilja hitta Marilyn Monroe, sem er í miklu uppáhaldi hjá honum, en Sir Isaac Newton.
Hawking, sem hefur verið nefndur í sömu andrá og Einstein og Newton, er nú veikur og var jafnvel óttast að hann lægi fyrir dauðanum.
Á vefsíðu Hawkings, sem hefur verið lokað vegna mikillar aðsóknar eftir að fregnirnar af veikindum hans spurðust út, segir hins vegar að honum líði sæmilega en muni þó verja nóttinni á sjúkrahúsi.