Bjó til erfðavísi úr látnu barni

Hinn umdeildi læknir Panayiotis Zavos hefur greint frá því að hann hafi búið til 14 erfðavísa úr mönnum með klónunartækni og komið ellefu þeirra fyrir í legum kvenna. Zavos segir þetta vera fyrsta skrefið í tilraunum sínum til að skapa barn úr húðfrumum foreldra þess. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Zavos greinir frá þessu í viðtali við blaðið The Independent. Þá segir hann aðgerðirnar hafa farið fram á ónefndum stað í Mið-Austurlöndum en tilraunir með fósturvísa úr mönnum eru bannaðar með lögum í Brelandi.

Zavos segist í viðtalinu telja að um tvö ár séu í það að hann geti búið til barna með klónun. Þá segir hann að á meðal fósturvísanna sem hann hafi búið til séu fósturvísar sem unnir séu úr frosnum blóðfrumum stúlku sem lést í bílslysi er hún var tíu ára. 

Slíkum fósturvísi hefur ekki verið komið fyrir í legi konu en móðir stúlkunnar mun hafa áhuga á að það verði reynt.

„Við höfum ekki áhuga á að klóna Michael Jordan, Michael Jackson eða þeirra líka. Hinir ríku og frægu taka ekki þátt í þessu,” segir hann. „Metnaður minn felst í því að hjálpa fólki.”

Josephine Quintavalle, stofnandi samtakanna Council on Reproductive Ethics sem fjalla um siðfræði í erfðavísindum, segir að burtséð frá þeim líkamleguáhættuþáttum sem fylgi klónun sé óréttlætanlegt gagnvart börnunum að þau séu sköpuð í mynd annarra.

„Með því að ætlast til þess að börnin fylli upp í skarð einhvers sem er dáinn sviptir maður þau réttinum til að vera einstök,” segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert