„Rangt að frelsa Keikó"

Norsk börn synda með Keiko
Norsk börn synda með Keiko mbl.is

Vísindamenn, sem tóku þátt í því verkefni að frelsa háhyrninginn Keikó og flytja hann til Íslands, segja nú að ekki hafi verið rétt að frelsa hann þar sem aldrei hafi verið raunhæfur möguleiki á því að hann gæti lært að lifa úti náttúrunni. Þetta kemur fram á vef tímaritsins New Scientist.

„Jafnvel þótt mönnum finnist það falleg hugsun að sleppa dýri sem lengi hefur verið í haldi eru mjög miklar líkur á því að það stofni lífi þess og velferð í hættu,” segir  Malene Simon, vísindamaður við stofnunina Greenland Institute of Natural Resources. 

Segir hún mjög ung dýr, sem hafi verið mjög stutt í haldi manna, vera einu hvaldýrin sem tekist hafi að aðlaga sig að lífinu í sjónum að nýju.

Keikó var fangaður við Ísland árið 1979. Hann var notaður í kvikmyndinni Free Willy árið 1993 en varði stórum hluta ævi sinnar einangraður frá öðum háhyrningum  í litlu búri í skemmtigarði í  Mexíkó. Hann var fluttur til Íslands árið 2000 af samtökunum Free Willy-Keiko Foundation og var hafður í kví í Klettsvík í Vestmannaeyjum.

Reynt var að þjálfa hvalinn þannig að hann gæti bjargað sér sjálfur en það tókst ekki. Hann nærðist illa og sótti stöðugt til manna. Samkvæmt staðsetningarmælingum kafaði hann einungis niður á 26 metra dýpi en algengt er að háhyrningar haldi sig á  50 til 75 metra dýpi.

Þá sást Keikó einungis einu sinni blanda geði við aðra háhyrninga, þann 30. júlí árið 2002. Hann yfirgaf þá hins vegar til að sækja aftur til manna. Sama sumar synti hann til Noregs þar sem hann drapst í desember sama ár, líklega af völdum lungnabólgu. Hann var þá talinn vera 26 ára.

„Þegar Keiko kom til  Noregs leitaði hann með virkum hætti í samskipti við menn með því að synda að bátum og fólki,” segir Simon. „Eftir nokkra daga varð hann síðan mjög daufur og hélt sig við lítinn bát, sennilega til að forðast ágang sífellt stækkandi hópa fólks sem reyndu að fanga athygli hans."

Þá segir hún vísindamenn Greenland Institute of Natural Resources nú telja að hefði Keikó lifað hefði verið best fyrir hann að fá að vera í umsjón þjálfara sinna í víkinni þar sem hann drapst. „Þar gat hann synt eins mikið og hann vildi, fengið eins mikið af frosinni síld, sem hann var mjög hrifinn af, og hann vildi og verið í tengslum við fólkið sem hann var tengdur og hélt honum virkum," segir hún.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka