SMS utan úr geimnum

Myndun gammablossa. Myndin er fengin af vef Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Myndun gammablossa. Myndin er fengin af vef Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Stjarneðlisfræðingar um allan heim, þar á meðal á Íslandi, fylgdust í síðustu viku spenntir með því þegar hrina háorku rafsegulgeislunar barst til jarðar utan úr geimum. Þessi hrina varaði í um 10 sekúndur og átti rætur að rekja til svokallaðs gammablossa, stjörnusprengingar sem varð fyrir 13 milljörðum ára en var nú fyrst að berast til jarðar.  

Fjallað er um þetta á íslenska stjörnufræðivefnum og þar kemur fram að Swift gervitunglið nam blossahrinuna sjálfa en Swift var hannað til að eltast við og mæla þessa fjarlægu blossa.

Að sögn Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, er Páll Jakobsson í meðal vísindamanna, sem rannsaka gammablossa með hjálp stærstu stjörnusjónauka jarðar og Swift gervitungls NASA. Fyrstu upplýsingarnar um að gammablossi hafi orðið berast frá gervitunglinu og þegar það hefur staðsett blossann á himinhvelfingunni, sendir geimfarið SMS skilaboð í GSM síma vísindamanna með upplýsingum um staðsetninguna og staðfestingu á að gammablossi hafi átt sér stað.

„Þetta getur gerst hvenær sem er sólarhringsins. Það er mjög mikilvægt  að bregðast skjótt við því svona sprengingar dofna mjög hratt. Upplýsingarnar um staðsetninguna eru notaðar til að velja einhverja af stærstu sjónaukum jarðar til þess að fylgja eftir glæðum blossans. Páll getur þannig hringt til Chile og beðið stjörnufræðingana þar að hætta öllu því sem þær eru að gera svo unnt sé að beina sjónaukunum að þessum dularfullu fyrirbærum," segir Sævar.

Haft er eftir Gunnlaugi Björssyni, prófessor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, á vef Stjörnuskoðunarfélagsins, að það séu merk tímamót í íslenskum stjarnvísindum, að Íslendingar skuli vera þátttakendur í rannsóknum á fjarlægustu fyrirbærum sem nokkru sinni hafa fundist frá jörðu.

Sævar Helgi segir, að mikill áhugi sé á stjörnuskoðun og stjörnufræði hér á landi og fari sífellt vaxandi. Um 250 manns eru í félaginu. 

Vefur Stjörnufræðifélagsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert