Íslensk hugbúnaðarlausn nýtt í Mexíkó vegna flensu

Merki TM Software
Merki TM Software

Heilbrigðisráðneyti Mexíkó hefur tekið í notkun samskipta- og upplýsingagátt frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software fyrir samræmt hjálparstarf vegna inflúensufaraldurs í landinu (H1N1). Gáttin byggir á lausn sem hefur verið í þróun fyrir samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðaraðstoðarmálum (OCHA).

Magnús Ingi Stefánsson hópstjóri hjá TM Software segir í fréttatilkynningu, það mikinn heiður fyrir fyrirtækið að fá tækifæri til þess að vinna verkefni að þessari stærðargráðu.

„Markmiðið með upplýsingagáttinni er að samræma hjálpar- og neyðaraðstoð stofnunarinnar og annarra hjálparsamtaka víða um heim. Þannig er hægt að koma fólki fyrr til aðstoðar, auka skilvirkni í hjálparstarfi og tryggja öruggari upplýsingamiðlun “

Lausnin er innri vefur fyrir miðlun og skjölun gagna og upplýsinga þeirra sem sinna mannúðar- og hjálparstarfi. Hún er unnin í samvinnu við Microsoft sem vinnur náið með SÞ í uppsetningu á upplýsingatækni á neyðarsvæðum.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess þegar TM Software og nokkur erlend upplýsingatæknifyrirtæki unnu upplýsinga- og samskiptagátt fyrir Microsoft og SÞ í kjölfar fellibylsins Nargis sem skall á Búrma árið 2008. Lausnin kom að góðum notum og því óskaði SÞ eftir því að fá að nota hana á öðrum neyðarsvæðum, samkvæmt tilkynningu.

Gísli Ólafsson tæknilegur ráðgjafi hjá Microsoft á Íslandi, sem jafnframt er í alþjóðlegu neyðaraðstoðarteymi Microsoft, segir að fljótlega hafi komið í ljós að TM Software hafi verið best til þess fallið að þróa og hanna nýja lausn fyrir SÞ. 

„Í kjölfar hamfaranna í Myanmar (Búrma) hóf TM Software að þróa samskipta- og upplýsingagátt fyrir SÞ sem nú hefur litið dagsins ljós. Miklar vonir eru bundnar við verkefnið enda kom berlega í ljós í Myanmar verkefninu að upplýsingatækni kemur að góðum notum við samræmingu og miðlun upplýsinga á hamfarasvæðum. Það er jafnframt einstaklega ánægjulegt að íslenskt hugvit hafi verið valið til þess að leiða þetta verkefni fyrir SÞ,” samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert