Botox sagt berast til heila

Leikkonan Teri Hatcher segist hafa notað Botox en ekki gera …
Leikkonan Teri Hatcher segist hafa notað Botox en ekki gera það lengur. Reuters

Ný rannsókn bendir til þess að efni, sem notuð eru í Botox hrukkumeðferð í andliti, berist til heilans. Í kjölfar rannsóknarinnar hefur bandaríska heilbrigðiseftirlitið FDA skerpt á viðvörunum sínum vegna slíkra meðferða. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Með Botox-meðferð eru vöðvar lamaðir tímabundið til að fjarlægja hrukkur en áhrif slíkra meðferða vara einungis í þrjá til fjóra mánuði.

Rannsókn, sem gerð var á rottum við stofnunina Instituto di Neuroscienze í Pisa á Ítalíu, bendir til þess að það taki efnin þrjá sólahringa að berast til heilans og að þau séu enn virk í heilanum sex vikum eftir að þeim er sprautað í andlitsvöðva.

Ekki greindust breytingar á hegðun tilraunadýranna á þessu tímabili og segja aðstandendur rannsóknarinnar hugsanlegt að ástæða þess sé sú um hve lítið magn lamandi efnis sé að ræða. Þeir segja þó ástæðu til að hafa áhyggjur af því að lamandi efni berist til heila.

Greint er frá rannsókninni í tímaritinu Journal of Neuroscience, sem er tímarit samtaka 38.000 heilasérfræðinga um allan heim.

Talsmenn fyrirtækisins Allergan, sem framleiðir Botox-efnið, hafa þegar gagnrýnt rannsóknina harðlega í tímaritinu Newsweek og sagt hana tilhæfulausa. Segja þeir niðurstöður hennar stangast á við allar rannsóknir fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert