Connie Culp, er fyrsta konan til þess að undirgangast árangursríka andlitságræðslu í Bandaríkjunum. Culp missti stóran hluta af andliti sínu fyrir fimm árum þegar eiginmaður skaut hana í andlitið áður en hann reyndi síðan að fremja sjálfmorð. Hann lifði af og hlaut sjö ára fangelsisdóm fyrir vikið. Frá þessu er m.a. greint á fréttavef Yahoo.
Culp var varla hugað líf eftir árásina, sem eyðilagði nef hennar, kinnbein, munnholið og annað augað. Það eina í andliti hennar sem var óskaddað eftir árásina var augnlokin, ennið, neðri varirnar og kinnar.
Fyrir fimm mánuðum undirgekkst Culp aðgerð þar sem hún fékk nýtt andlit frá látinni konu. Afrakstur aðgerðarinnar mátti svo sjá á blaðamannafundi í gær. Culp var enn fremur frosin í andliti, en hún gat talað og brosað. Auk þess upplýsti hún að hún gæti fundið lyktir aftur og bragð af mat. Hún á enn erfitt með að gera sig alveg skiljanlega þegar hún talar. Andlit hennar er þrútið og skinnið pokar, en læknar hyggjast laga það þegar blóðflæðið í andlitinu lagast og taugar lagast, sem svo aftur mun bæta vöðvavirknina í andlitinu.
Culp sagðist óendanlega þakklát læknum sínum. „Ég geri mér grein fyrir að þið eruð komin til þess að hitta mig, en mér finnst mikilvægara að þið beinið athyglinni að fjölskyldu konunnar sem lést og eftirlét mér andlit hennar.“
Í desember sl. undirgekkst Culp síðan 22 klst. langa aðgerð undir stjórn Maria Siemionow læknis, þar sem skipt var um 80% af andliti Culp með beinum, vöðvum, taugum, skinni og blóðvökvum frá annarri konu sem nýverið hafði látist. Culp er fjórða manneskjan í heiminum til þess að undirgangast andlitságræðslu. Í janúar sl. gat Culp síðan í fyrsta skiptið í fimm ár borðað annað en fljótandi fæði.