Fundu gen sem stjórnar blóðþrýstingi

Vísindamenn Hjartaverndar hafa í samvinnu við alþjóðlegt teymi vísindamanna fundið gen sem stjórna blóðþrýstingi og hafa áhrif á háþrýsting.

Þá hafa vísindamenn á vegum Hjartaverndar einnig fundið gen sem hafa áhrif á nýrnastarfsemi og nýrnabilun.

Fjallað var um rannsóknirnar í vísindatímaritinu Nature Genetics um helgina en þær byggjast m.a. á niðurstöðum úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar og langvarandi söfnun upplýsinga í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar.

Að sögn Hjartaverndar hefur til þessa gengið illa að finna gen sem hafa áhrif á blóðþrýsting þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir og því marki niðurstöðurnar nú því tímamót. Þær opni einnig leið fyrir frekari rannsóknir á háþrýsting og hugsanlega nýjum meðferðum við sjúkdómnum. 

Talið er að allt að einn af hverjum þremur einstaklingum á miðjum aldri hafi háþrýsting og tveir af hverjum þremur þarfnast meðferðar við háþrýstingi þegar einstaklingar eru komnir yfir 65 ára aldur samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar.

Háþrýstingur, sem hefur varað í nokkur, ár er ein helsta ástæða heilablóðfalla og er verulegur áhættuþáttur fyrir þróun kransæðasjúkdóms og hjartaáfalla. 

Aukinn skilningur á nýrnabilun 

Nýrnabilun er vaxandi vandamál með hækkandi aldri þjóða. Í Bandaríkjunum Norður Ameríku þá er langvarandi nýrnabilun verulegt vandamál og er talið að um 20 milljónir Bandaríkjamanna hafi slíka nýrnabilun. Þá er langvarandi nýrnabilun verulegur áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og hefur verulega aukna áhættu á áföllum í för með sér.

Að sögn Hjartaverndar er tíðni langvarandi nýrnabilunar svipuð á Íslandi og hjá öðrum þjóðum sem hafa sams konar áhættu á hjarta og æðasjúkdómum þótt nýrnaskiljun við lokastigs nýrnabilun sé ekki eins algeng hér á landi.

Haft er eftir Vilmundi Guðnasyni, forstöðulækni Hjartaverndar, sem leiddi íslenska rannsóknahópinn, að niðurstöður rannsóknarinnar gefi von um að hægt verði að öðlast betri skilning á langvinnri nýrnabilun og að nýir meðferðarmöguleikar verði fundnir sem geti seinkað eða komið í veg fyrir þennan alvarlega sjúkdóm. 

Hjartavernd

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert