Sjö mánaða gömul börn sem heyra tvö tungumál töluð á heimili sínu geta leyst verkefni sem jafnaldrar þeirra geta ekki. Þetta er niðurstaða rannsóknar ítalskra sálfræðinga.
Sálfræðingarnir rannsökuðu 120 sjö til átta mánaða gömul börn. Helmingur þeirra heyrði tvö tungumál töluð á heimilinu en hinn helmingurinn aðeins eitt.
Vísindamennirnir settu börnin fyrir framan skjá og voru þau látin hlusta níu sinnum á orð sem ekki höfðu sérstaka meiningu lesin upp af tölvu. Því næst heyrðu börnin í klukku og sáu mynd af dúkku annað hvort til hægri eða vinstri á skjánum.
Með því að fylgjast með augnhreyfingum barnanna komust sálfræðingarnir að því að báðir hóparnir voru jafnfljótir að læra samhengið á milli hljóðs og mynda.
En þegar tilraunin var endurtekin með öðrum orðum og dúkkan birtist hinum megin á skjánum voru tvítyngdu börnin fljótari að sjá samhengið.