Skyggnst aftur í Miklahvell

Vísindamenn undirbúa Herschel-geimsjónaukann.
Vísindamenn undirbúa Herschel-geimsjónaukann.

Tveimur geimsjónaukum, Planck og Herschel, var skotið á loft á braut um jörðu síðastliðinn fimmtudag. Evrópska geimferðastofnunin, ESA, smíðar sjónaukana sem stjörnuáhugamönnum þykja hafa fallið í skuggann af viðhaldsleiðangrinum til geimsjónaukans Hubble.

Sjónaukunum er skotið á loft á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar.

Sævar Helgi Bragason störnuáhugamaður segir Planck ætlað að rannsaka örbylgjukliðinn svonefnda, en það er hitageislun sem sýnir alheiminn eins og hann leit út þegar hann var aðeins 380.000 ára gamall og rúmlega 2700°C heitur.

„Örbylgjukliðurinn er því nokkurs konar bergmál Miklahvells sem segir okkur að alheimurinn átti sér heitt upphaf og er raunar ein sterkasta sönnunin fyrir Miklahvelli. Með hjálp sjónaukans munu stjörnufræðingar draga upp mynd af þróunarsögu alheimsins og efnis- og orkuinnihaldi hans, en eins og margir vita er 96% alheimsins ósýnileg,“ segir Sævar Helgi og heldur áfram.

„Herschel er stærsti geimsjónaukinn hingað til, 3,5 metrar í þvermál og því talsvert stærri en Hubble. Herschel sjónaukinn á að rannsaka mun lengri öldulengd ljóss heldur en Hubblessjónaukinn.

Hubble sér alheiminn að mestu leyti í sama ljósi og við, þ.e. sýnilegu ljósi, en Herschel verður fyrsti geimsjónaukinn sem sér fjær-innrautt ljós og út í útvarpsbylgjur. Þetta gerir Herschel kleift að gægjast í gegnum gas- og rykský sem byrgja Hubblessjónaukanum sýn og skoða þar af leiðandi köldustu fyrirbæri alheims; fyrirbæri á borð við köld stjörnumyndunarský og halastjörnur í útjaðri sólkerfisins.“

Hér má sjá Herschel frá nokkrum sjónarhornum.

Nánari upplýsingar á íslensku má nálgast hér.

Sjónaukinn frá öðru sjónarhorni.
Sjónaukinn frá öðru sjónarhorni.
Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert