Klámmyndir settar á YouTube

Samskiptavefurinn YouTube fjarlægði í dag mörghundruð klámfengin myndskeið, sem hlaðið var inn á vefinn fyrr í dag. Svo virðist sem um einskonar skipulagða vefárás hafi verið að ræða en myndskeiðin birtust á vefnum undir því yfirskyni að þau fjölluðu um frægar unglingastjörnur á borð við Hannah Montana og Jonas Brothers.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC byrjuðu mörg myndskeiðin á myndum af börnum en síðan birtust grófar klámmyndir.

Google, sem á YouTube vefinn, sagðist vera að vinna í að leysa þetta vandamál.

Fréttamaður BBC hafði samband við einn þeirra, sem talinn er hafa sett myndskeiðin á vefinn. Hann er sagður vera 21 árs Þjóðverji. Hann sagði: „Ég gerði þetta vegna þess að YouTube er stöðugt að fjarlægja tónlist. Þetta var hluti af árás 4Chan."

4Chan er skipulagður hópur, sem segist á vef sínum birta það sjúklegasta og hræðilegasta, sem fyrirfinnst á vefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert