Drekaeðlur ráðast á fólk

Komodo-dreki
Komodo-dreki Reuters

Eðlutegund sem kennd er við eyjuna Komodo á Indónesíu hrellir nú íbúa tveggja eyja í suðausturhluta Indónesíu. Eðlan, sem er stærsta eðla heims og í útrýmingarhættu, er sögð hafa tekið upp á því á undanförnum árum að ráðast á fólk.

Eðlan hefur tennur sem minna mest á hákarlatennur og er bit hennar svo eitrað að það dregur menn til dauða á nokkrum klukkutímum fái þeir ekki móteitur gegn því.

Vitað er til þess að tveir hafi látið lífið eftir slík bit á síðustu tveimur árum og nokkrir til viðbótar hafa hlotið alvarlega áverka. Íbúar eyjanna segja hins vegar ekki vera nema nokkur ár frá því að eðlurnar fóru að ráðast á menn.

„Ég hélt ég myndi ekki lifa það af… Ég hef varið helmingi ævi minnar í að vinna með Komodo-drekum en ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,” segir þjóðgarðsvörðurinn Main um árás sem hann varð fyrir. „Til allrar hamingju heyrðu vinir mínir til mín og komu mér á sjúkrahús í tæka tíð.”

Komodo drekar geta orðið allt að 3 metrar á lengd og 70 kg og eru þeir mjög vinsælir í dýragörðum í Bandaríkjunum og Evrópu. Þeir eru rándýr sem lifa aðallega á dádýrum.

Eðlurnar finnast nú eingöngu villtar á eyjunum Komodo og Rinca en þær dóu út á þriðju eyjunni Padar á níunda áratug síðustu aldar.

Til er þjóðsaga á svæðinu sem hermir að menn og drekar séu afkomendur  tvíbura og að því hafi þeir lifað öldum saman í sátt og samlyndi.

„Þeir réðust aldrei á okkur þegar við gengum ein í skóginum og hafa aldrei ráðist á börnin okkar,” segir einn íbúanna. „Nú höfum við öll miklar áhyggjur af þessu.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert