Sortuæxli, skæðasta tegund húðkrabbameins er sá sjúkdómur sem nú breiðist hraðast út í Bretlandi. Samkvæmt nýrri rannsókn greindust 650 ný tilfelli sjúkdómsins í landinu á milli áranna 2005 og 2006. Þetta kemur fram á fram á fréttavef BBC.
Árið 2006 höfðu 10.410 Bretar verið greindir með sortuæxli. Talið er að árið 2024 muni 15.500 Bretar hafa greinst með sjúkdóminn og að hann verði þá önnur algengasta tegund krabbameins þar í landi.
Sortuæxli eru algengari meðal kvenna en karla dánartíðni af völdum sjúkdómsins er hins vegar hærri á meðal karla en kvenna.
Sérfræðingar segja það mikið áhyggjuefni að fólk virðist líta framhjá þeim skaðlegu áhrifum sem sólböð geti haft.
„Þar sem tíðni húðkrabbameins eykst hraðar en aðrar gerðir krabbameins í Bretlandi er mjög mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgir sólbruna, hvort sem er frá sólinni eða sólarlömpum,” segir Sara Hiom, upplýsingafulltrúi samtakanna Cancer Research UK.
„Rekja má flest tilfelli þessarar gerðar húðkrabbameins til útfjólublárra geisla. Ef fólk passaði sig á að láta ekki húðina roðna um of eða brenna væri hægt að koma í veg fyrir mörg þessara tilfella. Þetta á sérstaklega við um fólk með ljósa, freknótta húð eða flekkótta húð.”