Alþjóðamálastofnun HÍ fær 35 milljóna króna styrk

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur hlotið 200.000 evru rannsóknarstyrk, eða sem nemur um 35 milljónum króna, úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn er veittur vegna þátttöku skólans í fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni þar sem skoðuð verða áhrif Evrópusambandsins á milliríkjasamstarf umhverfis fjögur innhöf Evrópu, Eystrasalt, Kaspíahaf, Miðjarðarhaf og Svartahaf.

Verkefnið, sem nefnist EU4SEAS,  hlaut alls vilyrði fyrir 1,2 milljóna evru styrk. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er ein átta rannsóknarstofnana sem koma að EU4SEAS  frá fjórum ríkjum innan Evrópusambandsins og fjórum utan þess. Verkefnið mun standa yfir næstu þrjú árin og líta til samstarfs ríkja á ýmsum sviðum, að því er segir í tilkynningu.

Meginhluta rannsóknarinnar verður fjórskipt. Í fyrsta hluta verður stjórnmála- og öryggissamstarf skoðað, í öðrum hluta samstarf á sviði umhverfis- og hafréttarmála. Þriðja lota rannsóknarinnar mun beinast að orku- og samgöngumálum, en í lokaumferð rannsóknarinnar verður kannað hvaða áhrif fjórfrelsi ESB hefur á svæðunum – það er frjálsir vöruflutningar, frjáls för fólks, frjáls þjónustustarfsemi og frjálsir fjármagnsflutningar.

Í kjölfar þessara fjögurra rannsóknarlota verður niðurstöðum safnað saman og kannað hvernig hægt sé að nýta þær til að bæta svæðisbundið samstarf.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka