Nokkrum sinnum hafa geimför og vélmenni verið send til Mars, m.a. til að ganga úr skugga um hvort þar sé, eða hafi verið, líf.
Vísindamenn hjá geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, velta því nú fyrir sér hvort þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að leita að lífi hafi þvert á móti þurrkað út hugsanlegar vísbendingar um lífverur.
Hafa þeir komist að því að á yfirborði plánetunnar er mikið um efni, sem kallast perklóríð. Þessi efni eru skaðlaus við venjulegar aðstæður, en þegar þau eru hituð losnar mikið af súrefni, sem getur valdið bruna í öðrum nálægum efnum. Aðferðin, sem notuð hefur verið byggist á því að hita sýni af yfirborði Mars. Segja vísindamennirnir að hugsanlega hafi vélmennin því óafvitandi brennt þau sönnunargögn, sem þeim var ætlað að finna. Alltént þurfi að breyta aðferðunum, sem beitt er. bjarni@mbl.is