Danskir vísindamenn hafa fundið örsameind, sem virðist geta drepið krabbameinsfrumur á tveimur sólarhringum. Segja danskir fjölmiðar, að þessi uppgötvun geti valdið straumhvörfum í meðhöndlun á ýmsum tegundum krabbameins.
Læknar á Skejby sjúkrahúsinu í Árósum hafa uppgötvað þessa örsameind, sem nefnd er miR 129. Þetta er tegund RNA kjarnsýru sem hverfur úr krabbameinsæxlum og þýðir, að illkynja frumur geta lifað áfram.
Hægt er að meta batahorfur sjúklinga með því að leita að þessari sameind. En einnig er útlit fyrir að uppgötvun Dananna gæti valdið straumhvörfum í læknismeðferð því ef miR 129 er sprautað í krabbameinsfrumur drepast þær á tveimur sólarhringum.
Aðrir vísindamenn hafa áður fundið sameindir, sem nota má til að mæla mismunandi tegundir krabbameins en ekki sameindir, sem ráðast á krabbameinsfrumur eru nýlunda.
Torben Ørntoft, sem fer fyrir vísindamannahópnum, segir að ekki megi reikna með að rannsóknirnar muni leiða til þess að nýtt og öflugt krabbameinslyf komi á markaðinn á næstunni. Rannsóknir á slíkum lyfjum, þróun þeirra og loks heimild til notkunar þeirra taki langan tíma.
Vísindamennirnir eru nú að kortleggja örsameindina nánar og undirbúa frekari rannsóknir.
Sagt verður frá rannsóknum dönsku læknanna í næsta tölublaði tímaritsins Cancer Research.