Fundu 10 þúsund ára gömul hvalbein

Bein úr sléttbak fundust þegar verið var að leggja hraðbraut í Bohusléni í Svíþjóð nýlega. Talið er að beinin séu 10 þúsund ára gömul en þau fundust í 72 metra hæð yfir sjávarmáli. 

Beinagrindin er 15-20 metra löng. Hluti af kjálkabeini, 2,5 metra langur, hefur fundist og einnig hryggjarliðir. Vísindamenn hjá háskólanum í Gautaborg og breska náttúrugripasafninu í Lundúnum eru nú að rannsaka beinin.

Á fréttavef Dagens Nyheter er haft eftir Thomas Dahlgren, dósent í sjávarlíffræði í Gautaborg, að um sé að ræða mjög spennandi fund sem varpi ljósi á þróun hvalastofna áður en veiðar höfðu áhrif á þá.  

Aldursgreiningin á hvalbeinunum er fundin út frá vitneskju um landris í Svíþjóð. Vísindamennirnir rannsaka nú hvort hugsanlega sé um að ræða beinagrind af svonefndum swedenborgarhval, hvalategund af sléttbaksætt sem fannst í Norðursjó en dó út fyrir um 8000 árum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert