Alls kyns tegundir af nýjum stýribúnaði eru helsta nýjungin á E3-tölvuleikjaráðstefnunni í Los Angeles sem nú stendur yfir. Helsta þróunin er í Project Natal sem er hreyfiskynjari sem gerir notandanum kleift að spila tölvuleiki án þess að áþreifanlegur stýribúnaður komi nærri. Búnaðurinn skynjar einnig hversu nálægt notandinn er frá sjónvarpinu og skynjar rödd hans.
Einnig hefur aragrúi af nýjum spennandi tölvuleikjum verið kynntur. Þar má nefna Dj Hero með sérstökum stýribúnaði sem lítur út eins og plötuspilari, nýr Tony Hawk-leikur þar sem stýribúnaðurinn er eins og hjólabretti í laginu sem spilarinn stendur á og tennisleikurinn Grand Slam Tennis fyrir Wii sem hannaður var að hluta til af gömlu tennisstjörnunni Peter Sampras.
Aðrir spennandi leikir sem koma út seint á þessu ári eða snemma á því næsta eru Final Fantasy XIII, Halo Reach, nýr Monkey Island og Star Wars: The Old Republic.