Íslensk líftækni seld til Bandaríkjanna

ORF líftækni hf. ræktar bygg til próteinframleiðslu í Grindavík.
ORF líftækni hf. ræktar bygg til próteinframleiðslu í Grindavík. mbl.is/Helgi Bjarnason

ORF Líftækni í Grindavík hefur samið við bandarískt húðvörufyrirtæki um að framleiða vaxtaþætti eða sérvirkt prótein sem er húðfrumum nauðsynlegt til endurnýjunar. Samningurinn er til þriggja ára og mun ORF Líftækni bæta við sig starfsfólki og auka umsvifin í kjölfarið.


Í fréttatilkynningu frá ORF Líftækni segir að þetta sé í fyrsta sinn sem vaxtaþættir sem framleiddir eru í plöntum séu notaðir í húðvörur.


„Við teljum vera mikil tækifæri fyrir grænar afurðir okkar á markaði fyrir húðvörur, enda er mikið öryggi falið í því að framleiða slík prótein í plöntum. Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi fyrstu spor okkar inn á markað fyrir húðvörur séu tekin í samstarfi við einn virtasta húðlækni Bandaríkjanna og það mun án vafa styrkja frekari sókn okkar inn á þann markað,“ segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni.

Prótein sem lagfærir húðskemmdir

Vaxtarþátturinn örvar meðal annars frumur til að lagfæra skemmdir af völdum sólbruna og spornar gegn almennri hrörnun húðarinnar. Náttúruleg virkni vaxtarþáttarins minnkar þó með aldrinum, sem hamlar viðhaldi og endurnýjun húðfruma.

ORF Líftækni og húðvörufyrirtækið Ronald L. Moy, MD. Inc. hafa unnið saman undanfarið ár að rannsóknum og þróun á notkun vaxtarþátta í húðvörum.

ORF Líftækni er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem þróað hefur nýstárlega aðferð, svonefnt Orfeus kerfi, fyrir framleiðslu á sérvirkum próteinum fyrir læknisrannsóknir, lyf og iðnað.

Kerfið byggir á því að nýta sér fræ byggplöntunnar sem smiðju fyrir þessi prótein. Byggið er ræktað í Grænu smiðju fyrirtækisins í Grindavík. Tilraunir með útiræktun hafa einnig farið fram undanfarin ár í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

ORF Líftækni hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2008

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert