Má bjóða þér uppfært heilabú með einbeitingarhæfni skáksnillingsins og stálminni þess sem engu gleymir? Langar þig til að lifa um alla eilífð, eða því sem næst, sem vélræn vitund á brautum örgjörva?
Einhvern veginn svona má draga saman draumsýn nokkurra hreyfinga í Kaliforníu sem hittast reglulega til skrafs og ráðagerða um það hvernig hraða megi samþættingu tölvutækninnar og mannshugans.
Markmiðið er skýrt: Mannshugurinn er í núverandi mynd úr sér gengið gangverk sem kallar á manngerðar viðbætur. Tíminn er of naumur til að eftirláta líffræðilegri þróun að halda í við tækniþróunina.
„Kerfið er gallað. Við þurfum að hanna betri heila,“ segir tölvusérfræðingurinn Salim Ismail í rökstuðningi fyrir hugmyndafræði sem stjórnmálahugsuðurinn Francis Fukuyama hefur lýst sem þeirri hættulegustu í heimi. Rök Fukuyama eru einföld: Jöfnuður mun heyra sögunni til þegar ríkir geta keypt sér aukið andlegt atgervi.
Ismail er ekki upptekinn af slíkum áhyggjum, heldur lítur svo á að heilabú okkar séu illa „forrituð“.
„Við þurfum tölvuflögur til að hafa eftirlit með taugakerfinu. Hin líffræðilega þróun mun ekki gera þetta fyrir okkur. Því verður tæknin að koma til skjalanna.“
Meðal annarra trúboða þessarar framtíðartrúar er hugvitsmaðurinn Raymond Kurzweil sem álítur að á fimmta áratug þessarar aldar muni koma fram á sjónarsviðið gervigreind sem verði mörg þúsund sinnum öflugri en samanlagt andlegt atgervi 9 milljarða jarðarbúa.
Ódauðleikinn er fylgismönnum þessarar hugmyndafræði, sem á ensku nefnist transhumanism, einnig hugleikinn, enda litið svo á að dauðinn sé ekki óhjákvæmilegur.
Tvær leiðir eru einkum nefndar í þessu samhengi. Annars vegar stórstígar framfarir í líffræði sem gagnast muni við að seinka öldrun svo mikið að einstaklingar geti vænst þess að lifa svo öldum skiptir.
Hin leiðin er enn framandlegri en hún felst í að yfirfæra upplýsingar sem búið er að skanna úr heilabúum yfir á tölvubúnað þannig að vitundin lifi til eilífðar á minnisrásum.
Færi svo að síðari leiðin yrði fær yrði hægt að fjölfalda einstaklinga, að því gefnu að líkaminn sé aðeins umbúðir utan um sál sem má afrita.
Greina má líkindi með ofangreindri hugmyndafræði og hugsuninni að baki mannkynbótum.
Líkt og þá er meginröksemdin sú að manninum beri að svara framförum á tilteknu sviði vísinda með því að leita allra leiða til að bæta mannkynið, enda sé maðurinn ófullkominn í núverandi mynd. Draumurinn um háþróað mannkyn er útópían sem rökin eiga að styðja.
Hvort „uppfærður“ mannshugur á eftir að reynast jafn mikill þvættingur og mannkynbótastefnan mun skýrast. Hitt er víst að í Kaliforníu er horft til 2030 sem ársins þegar Homo sapiens 2.0 lítur dagsins ljós.