Umræður um stjórnmál bæta lestur

Mbl.is/Friðrik Tryggvason

Umræður um stjórnmál og list hafa meiri áhrif á lestrarkunnáttu barna en félagslegur bakgrunnur foreldranna, samkvæmt nýrri danskri könnun. Umræður um fótbolta skila ekki sama árangri.

Börn sem taka þátt í umræðum um stjórnmál, bækur og kvikmyndir við kvöldverðarborðið lesa talsvert betur en börn sem aldrei tala um þessi efni. Þetta sýnir ný könnun frá Anvendt Kommunal Forskning í Danmörku og verða niðurstöður hennar kynntar betur í dag.

Þetta gildir bæði um fjölskyldur þar sem foreldrar eru lítið menntaðir og á heimilum þar sem foreldrarnir eru háskólamenntaðir og listaverk hanga uppi á veggjunum.

Rannsóknin beindist að börnum innflytjenda í tilteknum árgöngum í grunnskóla en ummræður um stjórnmál eru alveg eins mikilvæg á heimilum barna með danskan bakgrunn og hafa eins mikil áhrif á lestrarkunnáttu. Það leiðir eldri könnun sem sömu rannsóknarmenn framkvæmdu.

Ástæða þess að umræðurnar gagnast börnunum á þennan hátt er sú að þá þjálfast börnin í sundurgreinandi og gagnrýnni hugsun. Þau þjálfa ekki sömu færni ef þau tala um fótbolta eða hvernig það gekk í skólanum.

Góður lestur gengur ekki einungis út á það að skilja textann heldur líka að geta séð hann í stærra samhengi. Þeir sem framkvæmdu rannsóknina sögðu því að það gæti hjálpað til með lestrarkunnáttu ef nemendur tækju þátt í umræðum um þessi efni í skólum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert