Bændur og garðyrkjumenn fá síst krabbamein

Úr leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.
Úr leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Heiðar

Bændur og garðyrkjumenn eru í minnstri hættu að fá krabbamein á Norðurlöndunum en í mestri hættu voru þjónar og annað starfsfólk veitingahúsa auk annarra starfsstétta sem hafa auðvelt aðgengi að tóbaki og áfengi.

Þetta kemur m.a. fram í niðurstöðum viðamikillar rannsóknar á nýgengi krabbameina hjá starfshópum á Norðurlöndum sem sýnir fram á, að lífshættir, menntun og aðrar aðstæður starfshópa hafi afgerandi áhrif á krabbameinstíðnina.

Vinnutengdir þættir eru einnig mikilvægir varðandi tilurð krabbameina. Dæmi um slíkt sem staðfest eru í  rannsókninni, eru t.d. asbestmengun (fleiðrukrabbamein), viðarryk (krabbamein í nefi) og útfjólubláir geislar sólar (krabbamein í vörum). 

Fylgst með hópum í 45 ár

Könnunin var mjög umfangsmikil og fylgst var með hópunum í allt að 45 ár. Um var að ræða 15 milljón manns á aldrinum 30-64 ára sem gáfu upplýsingar í manntölum 1960, 1970, 1980/1981 og 1990 í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Ísland tekur í fyrsta skipti þátt í rannsókn af þessu tagi og  var byggt  á gögnum manntalsins frá 1981. Krabbameinsskrá Íslands og Rannsóknastofa í Vinnuvernd stóðu að rannsókninni af Íslands hálfu en upplýsingar úr manntalinu fengust frá Hagstofu Íslands.

Nýgengi krabbameina var skoðað fram til ársins 2005 en 2,8 milljónir krabbameinstilfella greindust hjá hópnum á þessu tímabili. Rannsóknin var ferilrannsókn þar sem kennitölur í manntölum voru tengdar  krabbameinsskrám á Norðurlöndum. 

Þegar litið var til krabbameina í heild var nýgengið hæst hjá starfsfólki veitingahúsa, körlum í drykkjarvöru- og tóbaksiðnaði, farmönnum, sóturum og kokkum. Lægst var nýgengið hjá bændum, garðyrkjumönnum, kennurum, prestum og læknum.

Hjá konum var nýgengi krabbameina hæst í tóbaksiðnaði, en einnig hærra en búast hefði mátt við hjá konum í prentiðnaði, blaðamennsku, byggingariðnaði, hjá stjórnendum, skrifstofukonum og starfskonumveitingahúsa en lágt meðal bænda og garðyrkjukvenna.

Blöðruhálskrabbamein algengast hjá körlum

Algengasta krabbameinið meðal karla í rannsókninni var krabbamein í blöðruhálskirtli: 339.973 tilfelli. Nýgengið var hæst meðal ýmissa háskólamenntaðra hópa en lægst meðal garðyrkjumanna og ýmissa hópa þar sem langrar menntunar er ekki krafist, svo og meðal karla sem ekki voru á vinnumarkaði. Vitað er að karlar sem láta fylgjast vel með heilsufari sínu og hafa góðan aðgang að greiningu hafa talsvert hækkað nýgengi krabbameins í blöðruhálskirtli. Þetta mein er óvenjulegt að því leyti að það er til staðar hjá meirihluta karla eftir sextugt, án þess að gera vart við sig nema í undantekningartilvikum.

Brjóstakrabbamein algengast hjá konum

Algengasta krabbameinið hjá konum var brjóstakrabbamein: 373.361 tilfelli. Nýgengi brjóstakrabbameins var hæst meðal margra háskólamenntaðra hópa en lægst m.a. meðal bænda, garðyrkjukvenna, bílstjóra og ýmissa ófaglærðra kvenna. Mikilvægir áhættuþættir brjóstakrabbameins eru barnleysi og að eignast fyrsta barnið seint, en þetta er mun algengara meðal langskólagenginna kvenna en annarra.

Starfsmönnum veitingahúsa og körlum í tóbaksiðnaði hætti mest til að fá lungnakrabbamein, en það tengist beinum og óbeinum reykingum. Karlar í drykkjarvöruframleiðslu, farmenn og fiskimenn voru einnig í mikilli hættu að fá lungnakrabba. Lítið var um lungnakrabbamein hjá læknum, tannlæknum, hjúkrunarfræðingum, kennurum og öðrum háskólamenntuðum svo og bændum og garðyrkjumönnum. Hjá konum sást að þær sem unnu á veitingahúsum eða í tóbaksiðnaðinum,  og ýmsir hópar með stutta skólagöngu að baki, voru í meiri hættu að fá lungnakrabbamein. Læknar, tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, kennarar og aðrar háskólamenntaðar konur svo og bændur og konur í garðyrkju voru í mun minni hættu.

Karlkyns starfsmenn veitingahúsa og konur í tóbaksiðnaði voru í meiri hættu en aðrir að fá krabbamein í blöðru en þeir hópar sem voru í minnstri hættu voru sömu hóparnir og nefndir voru í sambandi við lungnakrabbamein. Það er í samræmi við það sem vitað er, að reykingar tengjast þessu krabbameini. 

Lifrarkrabbamein tengdist vinnu þar sem var auðvelt aðgengi að áfengi: Nýgengi var hátt hjá starfsfólki veitingahúsa, kokkum, fólki í drykkjarvöruframleiðslu, blaðamönnum og farmönnum.
 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert