Rannsóknir ítalskra vísindamanna benda til að fólk eigi auðveldara með að vinna úr upplýsingum sem berast til þess um hægra eyrað en það vinstra og bregðist betur við beiðnum sem um það berast. Var þetta niðurstaða þriggja mismunandi tilrauna þar sem rannsakendur fylgdust með samskiptum fólks eða gáfu sig á tal við það með mismunandi hætti. Kemur þetta fram á fréttavef BBC.
Ástæða þess að fólk „heyri“ betur með hægra eyranu er talin sú að vinstra heilahvelið vinni úr upplýsingum sem berast þaðan en það hvel er talið færara í að vinna úr hvers konar beiðnum og spurningum. Er niðurstaðan rannsóknarinnar því í samræmi við kenningar um starfsemi heilans.
Við rannsóknina var í fyrsta lagi fylgst með samskiptum gesta á háværum næturklúbbi. Í ljós kom að 72% samtala var beint að hægra eyra viðmælanda. Í öðru lagi voru 160 gestanna spurðir óskiljanlegrar spurningar og þannig fengnir til að snúa sér að viðmælanda sínum. 58% buðu hægra eyra sitt.
Þriðja tilraunin fólst í að klúbbgestir voru beðnir um sígarettu, ýmist í hægra eða vinstra eyra. Í ljós kom að umtalsvert fleiri þeirra spurðir voru frá hægri gátu séð af vindlingi.