Keisaraskurður hefur áhrif á erfðaefni barna

Sænsk könnun hefur leitt í ljós að keisaraskurður getur haft …
Sænsk könnun hefur leitt í ljós að keisaraskurður getur haft áhrif á erfðaefni ungbarna. Þorkell Þorkelsson

Vísindamenn við Karolinska Institutet í Stokkhólmi hafa uppgötvað að uppbygging erfðaefnis í hvítu blóðkornunum er önnur í börnum sem tekin eru með keisaraskurði samanborið við börn sem fæðast í gegnum leggöng.

Í Svenska Dagbladet kemur fram að rannsóknin hafi verið gerð á blóðprufum úr naflastreng nýfæddra barna.

Líklegri til að fá ofnæmi og astma

Michael Norman, prófessor og barnalæknir sem er einn af vísindamönnunum sem gerðu þessa uppgötvun segir að þarna gæti verið komin hluti af skýringu á því að börn sem tekin eru með keisaraskurði séu líklegri til að þjást af sjúkdómum sem tengjast ónæmiskerfinu, svo sem astma, ofnæmi, krabbamein og sykursýki síðar á ævinni.

Telja vísindamennirnir að munurinn gæti falist í því álagi sem fylgi fæðingunni. Við fæðingu um leggöng eykst álagið smátt og smátt og öll varnarkerfi barnsins eru á fullu þegar það fæðist.

„Það er hollt álag sem hefur hlutverk. Við keisaraskurð er barnið óundirbúið og álagið kemur mjög skyndilega," sagði Norman í samtali við Svenska Dagbladet.

Hann lagði jafnframt á herslu á að hann ráðlegði engum að láta ekki framkvæma fyrirhugaðan keisaraskurð. „Ég lít svo á að þessi uppgötvun okkar sé innlegg í umræðuna. Hingað til hefur fólk haft þá skoðun að það fylgi keisaraskurði engin vandkvæði en með þessari uppgötvun bætast við ný rök í umræðuna," sagði Norman.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert