Kúnum gefinn hvítlaukur

Kýrin Blúnda
Kýrin Blúnda

Hvítlaukur dregur úr metanframleiðslu jórturdýra og hægt er að draga úr þessari framleiðslu þeirra um 94%. Talið er að metan frá jórturdýrum sé um það bil fimmtungur af öllu útstreymi frá jörðinni.

Breska líftæknifyrirtækið Neem Biotech hefur greint frá niðurstöðum rannsókna sem sýna að með því að gefa kúm og öðrum jórturdýrum hvítlauk sé hægt að draga úr metanframleiðslu þeirra um allt að 94%. Þetta er gleðiefni fyrir þá sem hafa áhyggjur af útstreymi gróðurhúsalofttegunda því talið er að metan frá jórturdýrum sé um það bil fimmtungur af öllu útstreymi á jörðinni.

Vísindamenn fyrirtækisins segja að það sé bakteríumótefnið allicin sem mikið er af í hvítlauk sem valdi því að bakteríuflóran sem framleiðir metan í vömb jórturdýra hættir þeirri starfsemi. Hjá kúm fer töluverð orka í metanframleiðsluna en hana geta dýrin nýtt til aukinnar mjólkurframleiðslu. Telja vísindamenn að venjuleg evrópsk kýr geti með hvítlauksgjöf framleitt 1,5 lítrum meira á dag en hún gerir nú. Auk þess styrkir hvítlaukurinn varnir dýranna gegn berklum og eykur vöxt þeirra. Nú er hins vegar verið að kanna hvort hvítlauksgjöf hefur áhrif á bragðgæði mjólkurinnar. Eiga niðurstöður úr þeirri könnun að liggja fyrir í næsta mánuði.

Fyrirtækið hyggur gott til glóðarinnar með því að setja þessa hugmynd á markað. Búið er að vinna virka efnið, allicin, úr hvítlauknum og er ætlunin að því verði dreift ókeypis til bænda. Fyrirtækið ætlar sér hins vegar tekjur úr viðskiptum með losunarheimildir en sá markaður er í örum vexti um þessar mundir. Verulegur markaður ætti að vera fyrir þetta efni, gangi fyrirheit um virkni þess eftir, því kúastofn heimsins er talinn í milljörðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert