Þrjár „nýjar" risaeðlutegundir

Steingervingafræðingurinn Scott Hucknell rannsakar steingervingana í Winton í Queensland í …
Steingervingafræðingurinn Scott Hucknell rannsakar steingervingana í Winton í Queensland í Ástralíu Reuters

Steingervingafræðingar hafa fundið merki um þrjár áður óþekktar tegundir risaeðla í Queensland í Ástralíu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Greint er frá fundinum í tímaritinu PLOS One. Þar kemur fram að ein tegundin hafi verið skelfilegt rándýr með þrjár langar klær á hvorum framfæti en að hinar tvær hafi verið jurtaætur. Líktist önnur þeirra helst gíraffa en hin flóðhesti.  

Minjar um dýrin fundust á svæði sem nefnt er Winton Formation og eru þær taldar vera hátt í 100 milljón ára gamlar frá svokölluðu Cretaceous-tímabili. 

Steingervingafræðingurinn Scott Hucknell segir hið nýuppgötvaða rándýr Australovenator wintonensis, hafa jafnvel verið enn stærra og meira ógnvekjandi en velociraptor-risaeðluna sem m.a. er þekkt úr kvikmyndunum um Jurassic Park. 

Rándýrinu hefur verið gefið gælunafnið Banjo en öll hafa hin steingerðu dýr fengið gælunöfn tengd ástralska laginu „Waltzing Matilda".

„Banjo var léttur og kvikur,” segir Hucknell. „Hann gat hlaupið uppi næstum hvaða bráð sem var á opnu svæði.” 

Hin dýrin hafa verið nefnd  Clancy (Witonotitan wattsi) og Matilda ( Diamantinasaurus matildae). Þau tilheyrðu risaeðlu-tegundinni titanosaurs, en henni tilheyrðu undirtegundir risaeðla, sem voru stæstu dýr sem ummerki hafa fundist um á jörðinni. 

Anna Bligh, yfirmaður Australian Age of Dinosaurs sögusafnsins í Winton í Queensland, segir fundinn veita mikilvægar nýjar upplýsingar um líf á forsögulegum tíma í Ástralíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert