Fjórðungur orðið fyrir ofbeldi

Ofbeldi gagnvart konum er algengt á Íslandi
Ofbeldi gagnvart konum er algengt á Íslandi mbl.is/ÞÖK

Tæplega fjórðungur íslenskra kvenna, sem annað hvort eru í sambúð eða giftar, hefur orðið fyrir kynferðislegu, andlegu eða líkamlegu ofbeldi af hálfu maka síns, samkvæmt nýrri rannsókn sem kynnt er í tímaritinu Journal of Advanced Nursing. Tæplega þrjú þúsund konur tóku þátt í rannsókninni.

Rannsóknin er unnin af Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur, sem stýrði rannsókninni og Brynju Örlygsdóttur. Báðar eru með doktorsgráðu í hjúkrunarfræði. 

Alls tóku 2.746 konur þátt í rannsókninni og leiðir rannsóknin í ljós að andleg og líkamleg heilsa kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi, hvort heldur það er líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt, er marktækt verri en þeirra kvenna sem aldrei hafa orðið þolendur ofbeldis. Kynbundið ofbeldi hefur áhrif á heilsu kvenna bæði til skamms og langs tíma.

18,2% af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3% líkamlegu og 1,3% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Yfir 11% þátttakenda hræðist maka sinn, bæði hvað viðkomandi sagði og gerði og yfir þriðjungur(34%) segir að spenna sé í sambandi viðkomandi við maka sinn.

7% giftra kvenna og 9% kvenna í sambúð þjáist af þunglyndi og 4% eiga við átröskunarvandamál að stríða, samkvæmt rannsókninni. 

Meðalaldur giftra kvenna sem tók þátt í rannsókninni er 47 ár en kvenna í sambúð 35 ár. Flestar kvennanna eru í fullu starfi og eiga eitt til þrjú börn að meðaltali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert