Hófleg neysla lengir lífið

Rannsóknin var gerð á Rhesuöpum og náði til tveggja áratuga.
Rannsóknin var gerð á Rhesuöpum og náði til tveggja áratuga.

Hófleg neysla næringarríks fæðis lengir lífið, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem fjallað er um í vísindatímaritinu Science. Niðurstaðan styður fyrri rannsóknir sem benda til að með því innbyrða færri kaloríur geti einstaklingar vænst þess að lifa lengur.

Rannsóknin var að vísu ekki gerð á mönnum heldur öpum, nánar tiltekið rhesuöpum, og tók um tvo áratugi í framkvæmd.

Að sögn Richards Weindruch, prófessors við læknadeild University of Wisconsin, sýna niðurstöður fram á að með því að draga úr kaloríuinntöku hafi mátt fækka öldrunarsjúkdómum þrefalt í öpum.

Þá var tíðni krabbameins og hjartasjúkdóma helmingi lægri hjá öpum sem voru á skertu fæði en hjá öpum sem fengu að éta að vild.

Einnig vakti eftirtekt að ekkert bar á sykursýki í öpum á skertu fæði.

Sterling Johnson, taugasérfræðingur við Wisconsin University og meðhöfundur rannsóknarinnar, segir takmörkun á neyslu kaloríuríks fæðis einnig góð fyrir heilann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert